Um félagið
Heim | Um félagið
Sögufélag Eyfirðinga
var stofnað 1971 og verður því 53 ára á þessu ári, 2024. Stofnfundar félagsins var haldinn í lestrarsal Amtsbókasafnsins á Akureyri 27. júní 1971. Alls voru á fundinum 29 manns. Jóhannes Óli Sæmundsson setti fundinn. Gat hann þess í upphafi að þetta væri fyrsta tilraun til að mynda þennan félagsskap. Taldi hann tíma til kominn að Eyfirðingar hæfust handa, þar sem næstu sýslur væru langt á undan þeim í útgáfu á sögulegum fróðleik, nefndi t.d. Þingeyinga og Skagfirðinga. Kristján, skáld frá Djúpalæk, tók til máls og kvaðst vera einn þeirra manna, sem bæru ábyrgð á þessum fundi og jafnframt gleðjast yfir því hversu fjölsóttur hann væri. Í framhaldi af því hófust mikil ræðuhöld fundarmanna um verkefni félagsins, skipulag þess og starfshætti. í fundargerðarbók félagsins eru færð stutt ágrip af allmörgum ræðum, og töluðu þar oftast þeir Jóhannes Óli og Kristján frá Djúpalæk, og eftir því sem fram
kom í umræðunum má ætla að þeir tveir hafi verið aðalfrumkvöðlar að stofnun félagsins. Þetta er úr grein Birgis Þórðarsonar frá 2011 um 40 fyrstu árin í sögu félagsins 1971-2011. Grein Birgis hér hér neðar á síðunni og líka hægt að smella á tengilinn hér að neðan.
Sögufélag Eyfirðinga 40 ára árið 2011
Höfundur greinarinnar, Birgir Þórðarson, er fæddur á Öngulsstöðum i Eyjafjarðarsveit 24 Janúar 1934. Hann hefur um árabil stundað fræðastörf í frístundum jafnframt búskap á Öngulsstöðum og félagsstörfum. Birgir situr í stjórn Sögufélags Eyfirðinga. Í eldri fundargerðabók félagsins er skráð ítarleg fundargerð stofnfundar félagsins, en hann var haldinn í lestrarsal Amtsbókasafnsins á Akureyri 27. júní 1971. Alls voru á fundinum 29 manns. Jóhannes Óli Sæmundsson setti fundinn. Gat hann þess í upphafi að þetta væri fyrsta tilraun til að mynda þennan félagsskap. Taldi hann tíma til kominn að Eyfirðingar hæfust handa, þar sem næstu sýslur væru langt á undan þeim í útgáfu á sögulegum fróðleik, nefndi t.d. Þingeyinga og Skagfirðinga. Þá nefndi Jóhannes til fundarstjóra Hauk Steindórsson í Þríhyrningi og fundarritara séra Bolla Gústafsson í Laufási. Þá hófust almennar umræður á fundinum og var Kristján, skáld frá Djúpalæk, fyrsti málshefjandi, kvaðst hann vera einn þeirra manna, sem bæru ábyrgð á þessum fundi og jafnframt gleðjast yfir því hversu fjölsóttur hann væri. Í framhaldi af því hófust mikil ræðuhöld fundarmanna um verkefni félagsins, skipulag þess og starfshætti. í fundargerðinni hefur fundarritari fært stutt ágrip af allmörgum ræðum, og töluðu þar oftast þeir Jóhannes Óli og Kristján frá Djúpalæk, og eftir því sem fram kom í umræðunum má ætla að þeir tveir hafi verið aðalfrumkvöðlar að stofnun félagsins. Af öðrum fundarmönnum, sem töluðu oftar en einu sinni, má nefna af handahófi Angantý Hjörvar Hjálmarsson frá Villingadal, Eið Guðmundsson á Þúfnavöllum og séra Bjartmar Kristjánsson á Syðra-Laugalandi. Þá kynnti Jóhannes Óli tillögu að lögum fyrir félagið í 7 grein um. Þar segir í 1. grein: Félagið heitir Sögufélag Eyfirðinga. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Og í 2. grein: Tilgangur félagsins er: Að safna, skipuleggja og skrá alhliða eyfirsk fræði og vinna að útgáfu þeirra. Niðurstaða fundarins eftir miklar umræður varð að boða skyldi til framhaldsstofnfundar þar sem gengið yrði frá lögformlegri stofnun félagsins og samþykkt laga þess. í undirbúningsnefnd fyrir þann fund voru tilnefndir þeir Hörður Jóhannsson, Haraldur Sigurðsson, Árni Kristjánsson, Ketil Guðjónsson og Jóhannes Óli Sæmundsson. Framhaldsstofnfundur félagsins var svo haldinn 24. júlí 1971. Ekki kemur fram í fundargerð hversu margir mættu á fundinn, en þar var fram haldið umræðum um starfsemi og framtíð félagsins. Þá var samþykkt að fresta formlegu stjórnarkjöri en undirbúningsnefndin starfaði áfram sem stjórn. Svo virðist sem enginn formlegur fundur hafi verið haldinn innan félagsins árið 1972. Þann 15. júní 1973 var svo haldinn fyrsti aðalfundur Sögufélags Eyfirðinga. Voru þar kynntar væntanlegar útgáfubækur félagsins, sem voru Sýslu- og sóknarlýsingar Eyjafjarðarsýslu, sem safnað var á vegum Hins íslenzka Bókmenntafélags 1839- 1854, rit þetta var einnig nefnt Eyfirzk fræði II. Þá hafði Sögufélagið tekið að sér sölu og dreifingu á Eyfirðingariti I, undirtitill Safn til sögu Eyjafjarðar og Akureyrarkaupstaðar, sem kom út á vegum Amtsbókasafnsins á Akureyri 1968. Þá var einnig rætt um að gefa út á næstunni Eyfirðingarit II, sem var ritið Bændur og búhagir í Arnarneshreppi 1824-1960, eftir Hannes Davíðsson á Hofi, var það síðan prentað 1974. Ári síðar, 1975, kom svo út bókin Bæjarlýsingar og teikningar, eftir Jónas Rafnar, undirtitill Eyfirsk fræði III. Á þessum fundi var svo kosin fyrsta formlega stjórn félagsins og var hún þannig skipuð: Sigurður Óli Brynjólfsson formaður, Jóhannes Óli Sæmundsson framkvæmdastjóri, Kristján frá Djúpalæk ritari, Hörður Jóhannsson og Ketill Guðjónsson meðstjórnendur. Á aðalfundi félagsins 22. maí 1976 var samþykkt að leita eftir kaupum á tímaritinu Súlum, með það fyrir augum að gera það að riti Sögufélagsins í stað Eyfirðingarits. Flutningsmenn þessarar tillögu voru þeir Kristján frá Djúpalæk og Hörður Jóhannsson, hefur það trúlega verið gert með fullri vitneskju og samþykki Jóhannesar Óla, stjórnarmanns Sögufélagsins og eiganda Súlna. Strax daginn eftir, 23. maí, kom stjórn félagsins saman til fundar og gekk frá kaupsamningi við eigandann, Jóhannes Óla Sæmundsson. Kaupverðið var kr. 700.000 og skyldi greiðast eftir samkomulagi. Seljandi lofaði að sjá áfram um ritstjórn tímaritsins, ásamt Valdimar Gunnarssyni, sem þá var orðinn formaður Sögufélagsins. Þá er rétt að gera stutta grein fyrir upphafi ritsins. Tímaritið Súlur byrjaði að koma út árið 1971 og var útgefandinn „Fagrahlíð“ Akureyri, en stofnendur ritsins og fyrstu ritstjórar voru Jóhannes Óli Sæmundsson og Erlingur Davíðsson og voru þeir báðir ritstjórar þess, þar til Sögufélagið eignaðist ritið og Jóhannes Óli var reyndar meðritstjóri næstu árin til 1981. Áskrifendur ritsins voru við eigendaskiptin um 900. Á stjórnarfundi félagsins 12. ágúst 1976, kemur fram að Jóhannes Óli hafði fengið í hendur handritasafn Stefáns Aðalsteinssonar ættfræðings, sem þá var látinn. Hafði Móses Aðalsteinsson, bróðir Stefáns heitins, sent honum handritin og afhent þau þar með Sögufélaginu til varðveislu og hugsanlegrar útgáfu. Stærsti hluti þessa safns var handrit að ábúendatali í Hrafnagils- Saurbæjar- og Öngulsstaðahreppum, og hafði raun ar áður komið fram, innan stjórnar Sögufélagsins, áhugi á að fá það handrit til útgáfu. Í fundargerðabók Sögufélagsins eru engar fundargerðir færðar frá því í ágúst 1978 þar til í janúar 1987 og mun starfsemi félagsins að mestu hafa legið niðri þann tíma. Þó kom tímaritið Súlur út nokkuð reglulega fram á árið 1983, en þá varð hlé á útgáfu. Þótti mörgum sem að ekki mætti láta við svo búið standa, og var boðað til almenns félagsfundar 28. jan. 1987. Var fundurinn allvel sóttur og kom þar fram mikill áhugi á að endurvekja starfsemi félagsins og hefja útgáfu Súlna að nýju. Kosin var ný stjórn, og á fyrsta fundi stjórnarinnar var gengið frá ráðningu Árna Haraldssonar sem ritstjóra Súlna og kom síðan nýtt hefti ritsins, undir hans ritstjórn, út á sama ári, 1987. Þá var einnig rætt um útgáfu á ábúendatali Stefáns Aðalsteinssonar og hefur það umræðuefni verið fastur liður á fundum félagsins, og er svo enn, þegar þetta er ritað. Þá hefur Sögufélagið á síðari árum komið við sögu varðandi söfnun og skráningu örnefna í héraðinu, en upphafsmaður þess þáttar í starfi félagsins var Bjarni Guðleifsson, en áður hafði Jóhannes Óli Sæmundsson starfað ötullega að söfnun og útgáfu örnefna í Eyjafirði. Þetta starf hefur þó færst aftur á hendur Bjarna Guðleifssonar, en Sögufélagið hefur ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að styrkja það vegna kostnaðar við ábúendatal Stefáns Aðalsteinssonar. Það var á árinu 2002 sem ákveðið var að hefja undirbúning að útgáfu ábúendatalsins. Var þá skipuð fjögurra manna ritnefnd til að búa ritið undir prentun. Í nefndina voru skipaðir: Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon. Við nánari skoðun þótti rétt að gera á riti Stefáns nokkrar lagfæringar, enda var það aldrei fullfrágengið af höfundinum. Áður hafði Kristján Sigfússon aukið við efni þess til nútímans og einnig sett inn ábúð á nokkrum jörðum sem Stefáni hafði ekki unnist tími til að taka saman. Hefur ritnefnd- in nú um nokkurra ára skeið unnið að þessu verki og hefur ritið nú farið í umbrot og lesnar hafa verið prófarkir. Ekki er þó ljóst á þessu stigi hvernig útgáfan verður fjármögnuð. Titill ritsins er: Eyfirðingar, og undirtitill: Framan Glerár og Varðgjár. Abúendatalið sjálft verður þrjú stór bindi, eitt um hvern hrepp, og í fjórða bindi verður nafnaskrá. Í heild gæti ritið orðið hátt í 3000 blaðsíður. Sögufélagið hefur fengið styrki til útgáfunnar frá nokkrum aðilum, sem félagið þakkar, en sem þó hafa aðeins dugað til að Hér á væntanlega að vera mynd Myndskreyting fremst í fundargerðarbók Sögufélags Eyfirðinga. Myndin er eftir hr Bolla Gústafsson, vígslubiskup í Laufási. kosta undirbúningsvinnu. Þarna er um að ræða rit sem greinir frá því fólki sem lifði og starfaði um aldir í einu af blómlegustu héruðum landsins. Sögufélagið heitir á alla sem áhuga hafa á varðveislu og skráningu menningar og mannlífs í Eyjafirði, að aðstoða félagið í þessu langstærsta verkefni sem það hefur tekist á hendur. Formenn Sögufélagsins, kosnir eftirtalin ár: 1973 Sigurður Óli Brynjólfsson 1976 Valdimar Gunnarsson 1987 Birgir Þórðarson 1989 Guðmundur Steindórsson 1997 Jón Hjaltason Ritstjórar Súlna frá upphafi: 1971-1981 Jóhannes Óli Sæmundsson 1971-1975 Erlingur Davíðsson 1976-1983 Valdimar Gunnarsson 1982-1983 Þórhallur Bragason 1987-1993 Árni J. Haraldsson 1992-1993 Angantýr H. Hjálmarsson 1993-2000 Jóhann Ó. Halldórsson 2002-2004 Einar Brynjólfsson 2005- Haukur Ágústsson